Raudavik.net

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

Valtýr Þorsteinsson frá Rauðuvík


Valtýr Þorsteinsson frá Rauðuvík

Þorsteinn Valtýr Þorsteinsson fæddist að Rauðuvík á Árskógsströnd 23. apríl aldamótaárið 1900, elstur tíu systkina. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson útvegsbóndi, Litlu Hámundarstöðum og Valgerður Sigfúsdóttir, húsfreyja. Valtýr var alinn upp við myndarskap í heimili, dugnað, nýtni og þrifni. Aðstæður til menntunar voru litlar, en eigi að síður var lagt kapp á að koma börnunum til mennta eftir ástæðum. Valtýr nam ekki hefðbundinn skólalærdóm, nema í farskóla og síðan einn vetur í unglingaskóla. Þó varð hann mjög vel að sé um margt og hafði hann mjög góða hæfileika til menntunar og glöggskyggni á hvað væri mikilvægt og kæmi best að notum í lífsstörfunum. Hann fór ungur að róa með föður sínum og lærði smíðar hjá afa sínum Þorsteini Sigfússyni skipasmið í Rauðuvík. Valtýr kvæntist Dýrleifu Ólafsdóttur á árinu 1922 og fluttu þau til Akureyrar árið eftir. Þar stundaði hann smíðar þótt hann væri ekki fulllærður þá og auk þess vann hann önnur störf sem fengust. Hann lærði smíðar hjá Gunnari Jónssyni skipasmíðameistara á Akureyri og öðlaðist réttindi sem skipasmíðameistari og hafði einnig vélstjóraréttindi hin minni.

Fjölskyldan flutti að Rauðuvík á árinu 1928. Þar gerði hann fyrst út árabáta og síðan trillubáta. Auk þess smíðaði hann fjölmarga báta fyrir nágranna sína og hafði menn með sér við smíðina. Hann annaðist smíði á um 20 árabátum og trillubátum. Þá gerði hann út leigubáta á síldveiðar yfir sumartímann. Árið 1939 lét hann smíða vélbátinn Gylfa EA 628 og tók hann sjálfur þátt í smíðinni. Hann hóf um þetta leyti að salta síld á eigin vegum. Síldin var veidd í lagnet sem lögð voru skammt frá landi og var síldin söltuð heima á Rauðuvík til útflutnings. Á þessum árum rífur hann síg upp úr meðalmennskunni og breytist úr útvegsbónda í útgerðarmann. Valtýr hafði mikil afskipti af félagsmálum þann tíma sem hann bjó á Rauðuvík. Hann var um skeið oddviti Árskógsstrandarhrepps. Hann var virkur þátttakandi í störfum ungmennafélagsins og var auk þess organisti í Stærri Árskógskirkju. Valtýr varð fljótt þekktur fyrir dugnað og atorku. Hann fór sínar eigin leiðir, tók áhættur sem mörgum fannst ganga of langt, en einhvern veginn reyndust þær byggðar á traustari grunni en flestir ætluðu og náðu því oftast tilgangi sínum. Stjórnunarhæfileikar hans þóttu með afbrigðum og sérhlífni óþekkt hugtak í hans huga. Börn Valtýs og Dýrleifar voru Hreiðar f. 1925 d. 2002 og Valgerður Þóra f. 1934 d. 1960. Hreiðar varð fyrir miklum áhrifum af föður sínum og varð er á leið hans hægri hönd og ómetanleg stoð. Þegar á leið tók Hreiðar aukinn þátt í rekstrinum og eftir að Valtýr veiktist sá Hreiðar um reksturinn að mestu leyti. Fjölskyldan flutti til Akureyrar á árinu 1943 og bjuggu þar síðan. Þar byggði hann hús að Fjólugötu 18 og þar var heimili þeirra hjóna og skrifstofa vegna rekstrarins alla tíð. Var þar oft margt um manninn t.d. vegna launaútborgana til skipverja o.fl.

Árið 1946 kaupir Valtýr ásamt fleirum vélbátinn Garðar EA 761, sem stundaði sumarsíldveiðar fyrir Norður- og Austurlandi eins og Gylfi EA 628, en að vetrinum sóttu þeir vertíð frá Suðurnesjum. Akraborg EA 50 var keypt til landsins á árinu 1946. Skipið var smíðað í Svíþjóð sem flutningaskip og var þrímöstruð seglskúta með hjálparvél. Var það í fyrstu mikið í flutningum og flutti margskonar varning. Fáum árum síðar var byggð ný brú í Akraborgu og skipinu breytt í nýtískulegra horf. Gylfi, Garðar og Akraborg stunduðu síldveiðar yfir sumartímann og veiddu framanaf í snurpunót, en um 1950 var sú veiðiaðferð lögð niður og hringnótaveiði hefst.

Hinn 4. júlí 1956 var birt eftirfarandi frétt í Akureyrarblaðinu Degi: “Fyrsta síldin, sem berst á land við Eyjafjörð, var söltuð á Hjalteyri sl. föstudag. Akraborgin lagði þar upp 800 mál og tunnur. Feðgarnir Valtýr Þorsteinson og Hreiðar Valtýsson sonur hans , sem nú eru mestu útgerðarmenn á Norðurlandi, hafa þarna söltunarstöð“ Á árunum 1950-1963 rak Valtýr síldarsöltunarstöð á Hjalteyri og sá Hreiðar um þann rekstur að mestu leyti. Á árunum1951-1957 hafði Valtýr frystihús og söltunarstöð í Innri Njarðvík á leigu ásamt öðrum og lögðu bátar hans afla sinn á land þar. Árið 1950 var Norðursíld hf. á Raufarhöfn stofnað og bryggja tekin þar á leigu til síldarsölunar. Árið 1956 keypti Valtýs í félagi við annan aðila vélbatinn Gylfa II EA 150, nýsmíðaðan. Á árinu 1958 kaupir Norðursíld hf. eignir á Raufarhöfn og fer þá í gang bygging nýrrar söltunarstöðvar og bryggjugerð. Á árinu 1961 starfrækti Valtýr söltunarstöð á Siglufirði. Um þetta leyti fór síldin að venja komur sínar meira til Austfjarða og leiddi það til þess að Valtýr gerði samning um leigu á söltunaraðstöðu á Seyðisfirði. Síðan var keypt húseign og lóð utar í firðinum og hafist handa við að byggja bryggju og söltunaraðstöðu þar. Árið 1960 lét Valtýr smíða stálskipið Ólaf Magnússon EA 250 í Noregi og var skipið með kraftblökk og mjög fullkomið af öllum tækjum. Árið 1964 lét hann síðan smíða stálskipið Þórð Jónasson EA 350 í Noregi í samvinnu við annan aðila. Skipið var fullkomið að allri gerð og var m.a. stærsta skip síldveiðiflotans sumarið 1964. Hann eignaðist síðar skipið að fullu. Auk starfa við eigið fyrirtæki gegndi hann margvíslegum trúnaðarstörfum, svo sem formennsku í Útvegsmannafélagi Eyjafjarðar, var fulltrúi í verðlagsráði Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 1948 til 1961, í stjórn Landssambands íslenskara útvegsmanna frá 1961 til 1967, í Síldarútvegsnefnd frá1962 til 1967, í stjórn Tunnuverksmiðju ríkisins og oft fulltrúi Fiskifélagsdeildar Norðurlands á Fiskiþingum.

Árið 1966 var hafin smíði frystihúss á Seyðisfirði. Það var smíðað eingöngu í þeim tilgangi að frysta þar síld. Lítil sem engin síld var þó fryst þar vegna þess að síldin hvarf af Íslandsmiðum. Frystihúsið tók til starfa 1968 eftir að breytingar voru gerðar í þeim tilgangi að frysta bolfisk. Árið 1968 urðu þær breytingar á síldargöngum að síldin hélt sig á hafsvæðinu utan hrygningar-stöðvanna við Noreg með þeim afleiðingum að landsöltun á Íslandi var úr sögunni. Var þá ákveðið að leigja 800 lesta flutningaskip og nota það sem söltunarmóðurskip á miðunum norður í hafi. Leiðangursstjóri var Hreiðar Valtýsson. Voru farnar tvær ferðir sem tóku hvor um þrjár vikur. Að veiðiferð lokinni var síldin flokkuð hjá Norðursíld hf. á Raufarhöfn.

Valtýr Þorsteinsson andaðist 10. apríl 1970 eftir langvarandi veikindi. Síðustu ár ævi sinnar gekk hann ekki heill til skógar, en hann barðist við veikindi sín svo sem honum var unnt, oft meira af vilja en mætti síðustu árin. Um hann var sagt: „Valtýr Þorsteinsson var þreklegur maður og gerðarlegur, bar ekki tilfinningar sínar eða fyrirætlanir á torg, stefnufastur, hygginn og heppinn, glaður jafnan í viðræðum , skrumlaus maður og fumlaus og gekk heill að hverju starfi.“ Um hann sagði einn af skipstjórum hans ; „Hann tók alltaf jafn vel á móti okkur þegar við komum í land, hvort sem við vorum með mikinn eða lítinn afla, og hann hafði jafnan gamanyrði á vör“

Greinin er samantekin af Heimi Haraldssyni