Hjalteyri
1951-1963 Síldarsöltun á Hjalteyri. Saltaðar 27 þúsund tunnur.
Höfum ekki miklar upplýsingar um söltunina á Hjalteyri fyrstu árin. Sennilega hefur þá verið saltað í fyrstu á bryggjunni vestan við bræðsluna og/eða í stórum bragga norðan við bryggjuna. Bryggjan var n-laga, þ.e. hægt var að keyra inn á öðrum bryggju kantinum og út á hinum. Í samningi sem gerður var við Kveldúlf hf við upphaf söltunar á Hjalteyri kemur fram að Kveldúlfur leigi aðstöðu til söltunar og fær í staðinn ákveðið hlutfall af hagnaði síldarsöltunar.
Árið 1937 reisti Kveldúlfur hf. eina stærstu síldarverksmiðju í Evrópu á Hjalteyri sem starfaði til ársins1968, þegar síldin hvarf. Mikill eldur kom upp í mjölskemmu bræðslunnar vorið 1954 og stóðu aðeins útveggir byggingarinnar eftir. Söltunin fluttist inn í bygginguna eða tóftina, sem var ágætis söltunapláss þótt þaklaust væri. Lagerinn var vestan við stóru lýsistankana og var tunnunum velt þangað á sliskjum frá byggingunni. Starfsfólk kom af Hjalteyri, sveitunum í kring og einnig frá Akureyri.
Skrásetjari fékk þarna sín fyrstu kynni af silfri hafsins og varð gjaldgengur tunnustrákur seinustu árin sem saltað var á Hjalteyri.