Raudavik.net

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

Akraborg EA 50

Akraborg EA 50 var smíðuð í Svíþjóð 1943 og hét þá m/s Tove. Þriggja mastra, eik, 178 brl., 160 ha. Bolinder vél. Kemur til Akureyrar í ársbyrjun 1947. Eigandi Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður. Á næstu árum voru gagngerar breytingar gerðar, ný brú, ný tæki, breytingar í lest og káetum. Árið 1953 var sett í skipið 400 ha. Alpha díselvél. Seinna kom svo kraftblökk og fl. Tekin af skrá 1979 eftir nokkura ára legu við Torfunesbryggju. Sökk við bryggjuna í ágúst1980. Akraborgin var skömmu seinna dregin af Ólafi Magnússsyni EA 250 norður fyrir Flatey og sökkt.

Akraborginn var í eigu útgerðarinnar í rúm 33 ár. Líkan Grímur Karlsson, Iðnaðarsafnið á Ak.

Dagur 2. tbl. 15.01.1947

185 smálesta flutningaskip bætist við skipastól bæjarmanna

Ms. Akraborg EA-50 nýlega komin hingað frá Svíþjóð

Fyrir nokkru kom hingað til bæjarins mótorskip, sem Valtýr Þorsteinsson, útgerðarmaður hefir keypt til landsins frá Svíþjóð. Þetta er þrímastra tréskip, 185 smálestir að stærð, knúið 160 hestafla Bolindervél.

Það er svo að segja nýtt, byggt 1943 hjá kunnri, sænskri skipasmíðastöð undir eftirliti Buerau Veritas, og er mjög sterklega byggt úr eik, járnvarið að utan til varnar gegn ísi. Skipið er byggt sem flutningaskip og hyggst Valtýr nota það jöfnum höndum til flutninga og síldveiða. Mun það vera mjög álitlegt skip til síldveiða og lesta a.m.k 2000 mál síldar. Skipið var í síldveiðiflota Svía hér við land sl. sumar. Skipið er búið öllum nýtízku öryggistækjum, svo sem talstöð, miðunarstöð og sjálfritandi dýptarmæli. Ganghraði þess er um 9 mílur.

Nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipinu og er þegar byrjað að smíða skilrúm í lestarrúm. Þá er einnig fyrirhugað að gera nokkrar breytingar á mannaíbúðum og stækka þær og búa nýjum tækjum.

Skipið hefur hlotið nafnið Akraborg og ber einkennisstafina EA-50. Heimahöfn þess er Akureyri .

Valtýr Þorsteinsson er athafnasamur útgerðarmaður. Auk Akraborgarinnar á hann mótorbátinn Gylfa frá Rauðuvík og gerir hann út frá Sandgerði í vetur. Þá er hann og þátttakandi í útgerð Garðars frá Rauðuvík sem er 50 smálesta Svíþjóðarbátur.

Þetta myndarlega skip er góður fengur fyrir skipastól þann, sem héðan er gerður út og atvinnulíf bæjarmanna, og á Valtýr þakkir skildar fyrir dugnað sinn og framtak.


🔗 Timarit