Raudavik.net

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

Gylfi EA 628

Gylfi EA 628 var smíðaður af Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri árið 1939 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgm. í Rauðuvík. Eik og beyki 35 brl. 100 ha. Alpha díesel vél. Ný vél 240 ha. GM díesel vél var sett í bátinn 1944 og 1957 var sett í hann 250 ha. GM vél. Árið 1962 var vél endurbyggð, vistarverur endurnýjaðar og endurnýjun í lest og þilfari. Kraftblökk var þá sett í bátinn. Seldur við árslok 1965. Tekin af skrá 1983. Sjá nánar um seinni eigendur: Íslensk skip, bindi, bls. 106.

Gylfi var í eigu útgerðarinnar í rúm 26 ár.

Mynd úr safni útgerðar Mynd úr safni útgerðar

Dagur 25. tbl. 22. júní 1939

Mikilsverðar framkvæmdir á Oddeyrartanga

Smíði á mótorbátum

Í byrjun febrúarmánaðar s. l. var hafin hér á Oddeyrartanga smíði á 2 mótorbátum 24/25 smálesta og 1 bát 35 smálesta. Litlu síðar var svo hafin smíði á 12 smálesta mótorbát á sama stað. Ef til vill er bæjarbúum ekki kunnugt um þessar framkvæmdir, þar sem smíði bátanna fer fram á þeim stað í bænum, er almenningur leggur tiltölulega sjaldan leið sína um. En þar sem hér er um að ræða mjög ánægjulegar framkvæmdir, er skapa bæjarbúum mikla atvinnu, skal farið nokkrum orðum um þennan iðnað. [...]

Stærsti báturinn, 35 smál., er smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík. Er hann smíðaður í tímavinnu, og annast Kristján Nói Kristjánsson um smíðina. [...] Tveir af bátunum eru með nýtízku lagi, en 35 smálesta og 12 smálesta bátarnir með eldra lagi. Bátarnir eru byggðir úr eik og allt efni og vinna er vandað svo sem tök eru á, og gert er ráð fyrir að bátarnir verði tilbúnir um n. k. mánaðamót. [...]


🔗 Timarit

(Aldnir hafa orðið I, bls 59, útg. P.O.B. 1972)
Um smíðina segir Nói bátasmiður: „En svo smíðaði ég Gylfa fyrir Valtý á Rauðuvík. Við byrjuðum á honum í febrúarmánuði og hann fór á síld um sumarið. Hann mátti ekki vera nema 36 tonn, miðað við snurvoðina, og var talinn það. En bátur sem ber 500-600 mál eins og Gylfi er meira en 36 tonna bátur. Við vorum margir um smíðina, meðal annars Sigfús í Kálfskinni og svo náttúrulega Valtýr sjálfur, sem var mjög góður bátasmiður og verkhagur maður í bezta lagi. Við náðum því nokkurn veginn að fylgja áætlun við smíðina á Gylfa. En fyrir kom, að við hættum ekki fyrr en klukkan tólf á kvöldin, ...“.
Þegar v/b Gylfi var sjósettur orti Konráð Vilhjálmsson þessa vísu - sem hékk alla tíð skrautrituð og vel innrömmuð á skrifstofunni.

Sigldu hlaðinn heill frá bæ,

hljóttu dýra fengi.

Gifta fylgi Gylfa á sæ.

Gangi vel - og lengi.