Ólafur Magnússon EA 250
Ólafur Magnússon EA 250 var smíðaður í Brattvag í Noregi árið 1960 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgerðarmann (Ólafur Magnússon var tengdafaðir Valtýs). Stál. 173 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Eitt fyrsta íslenska nótaveiðiskip með kraftblökk og jafnframt eitt fullkomnasta síldveiðiskip á þessum tíma. Árið 1965 var skipið lengt um 2,5 metra hjá A/S Trondhjemns mek. Noregi. Ólafur Magnússon var seldur í nóvember 1983 Nirði h/f sem var í eigu KEA (skráð Sólfell EA 640). Tekið af skrá hérlendis 1992. Var breytt í brunnbát í Noregi og fór í brotajárn árið 2018.
Dagur 33. tbl. 6. júlí 1960
Fagurt fiskiskip bætist í flotann
Eigandi Valtýr Þorsteinsson – Skipið heitir Ólafur Magnússon og er smíðað í Noregi
Í gærmorgun kom hið nýja stálskip Valtýs Þorsteinssonar útgerðarmanns til Akureyrar, fánum skreytt. Smíðað í Brottvog.
Heimferðin hafði tekið 3 sólarhringa og tvær klukkustundir frá Álasundi í Noregi, og má því geta sér til um ganghraðann. En þetta mun fljótari ferð fiskiskips en venja er. Ólafur Magnússon er stálskip, sterklega byggt og styrkt sérstaklega fyrir ís. Það mun vera af svipaðri stærð og austur-þýsku togararnir.
Skipið er búið 600 ha. Vikmannaflvél. Ljósavélar eru tvær og eru samanlagt um 62 hö.
Auk þess eru tvær frystivélar, og er það áður óþekkt í fiskiskipi af þessari stærð. Ráðgert er að frysta beitusíld o. fl., ennfremur er hægt að hafa 20 stiga frost í lestum milli landa og hægt er að frysta heilan skipsfarm af afla. Lestin er öll einangruð og hægt að kæla hana á mjög stuttum tima. Hægt er að frysta 50 tunnur síldar á sólahring. Í athugun er að setja einnig upp venjuleg frystitæki. Mannaíbúðir eru mjög góðar og rúm fyrir 16 manns. En á síldveiðum verða 11 menn, auk þess tveir menn, sem sjá um frystinguna.
Skipstjóri er Hörður Björnsson, Dalvík, og stýrimaður Jónas Garðarsson. – vélstjórar Tómas Kristjánsson og Jóhann Baldvinsson.
Skipið kostaði 7-8 millj. kr. eins og það er nú. Giskað er á, að það beri ca. 1200 mál síldar.
Af siglingar- og öryggistækjum, sem öll eru af fullkomnustu gerð, má nefna lorantæki.
Skipið mun hafa farið á síldveiðar í gærkveldi og fylgja þessu nýja og glæsilega skipi Valtýs Þorsteinsssonar, sem jafnframt er fimmta skipið hans, hinar bestu óskir.