Raudavik.net

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

Þórður Jónasson EA 350

A4 1964 fyrsta löndun Krossanesi ( vþh) Löndun í Krossanesi 1964. Ljósm. VÞH

F Húsavík 2021 (vþh) Í Húsvíkurhöfn 2021, eða 57 árum seinna. Ljósm. VÞH

Alþýðumaðurinn 20. tbl. 11. júní 1964

Nýtt skip bætist í flotann

M/s Þórður Jónasson RE 350. Eigendur Valtýr Þorsteinsson, Akureyri og Sæmundur Þórðarson, Stóru- Vatnsleysu.

Í dag kom hingað til Akureyrar frá Noregi nýtt 300 tonna fiskiskip, Þórður Jónasson RE 350. Eigendur eru Valtýr Þorsteinsson, útgerðarmaður hér, og Sæmundur Þórðarson, skipstjóri, Stóru Vatnsleysu, er sigldi skipinu heim og verður skipstjóri á því. Sæmundur hefur síðastliðin tvö ár verið skipstjóri á Akraborg og áhöfnin að kalla sú sama og þar var.

Samningur um smíði skipsins var gerður við A/S Akers mek. Verksted Oslo, en skipið byggt hjá Stord Verft, Stord, en Stord Verft er ein af þeim skipasmíðastöðvum, sem eru í Akers gruppunni, og er m/s Þórður Jónasson fyrsta skipið, er þeir byggja fyrir Íslendinga. Umboðsmaður hér á landi fyrir Akers mek. Verksted er Péur O. Nikulásson, Reykjavík.

Þórður Jónasson er stærsta fiskiskip, sem byggt hefur verið fyrir Íslendinga, þegar frá eru taldir togarar og verður að líkindum stærsta skipið, sem í sumar stundar síldveiðar fyrir Norður- og Austurlandi.

M/s Þórður Jónasson er byggður í klassa Norsk Veritas + 1A1 ISC Havfiske og samkvæmt kröfum skipaskoðunar ríkisins og er vandaður að allri gerð. Skipið er búið öllum beztu öryggis- og fiskileitartækjum, svo sem tveimur dýptarmælum, sem báðir eru með sjálfleitandi asdic útfærslu, öðrum af Simrad gerð og hinum af Atlasgerð, Kelvin Huges radar, Arkas sjálfstýringu, Koden miðunarstöð og Koden Loran, Simrad sendistöð 100 vatta. Frystilest er í skipinu og tvær aðskildar fiskilestar með aluminium uppstillingu og plastklæddri innsúð. Er hægt að kæla báðar fiskilestarnar.

Íbúðir fyrir 14 menn eru allar aftur í skipinu, í eins og tveggja manna klefum.

Aðalvél er Wickmann 700 hestafla og þrjár Lister hjálparvélar, er geta framleitt um 100 kw af rafmagni. Allar vindur eru olíudrifnar og má frátengja þær úr stýrishúsi. Hægt er að hafa tvær nætur í senn á bátaþilfari.

Á heimsiglingu frá Noregi reyndist skipið mjög vel. Ganghraði þess í reynsluför varð 13 mílur.

Stýrimaður á m/s Þórði Jónassyni verður Sigurður Kristjánsson, Hafnarfirði, og vélstjórar þeir Björn Sigurbjörnsson, Reykjavík, og Tómas Kristjánssson, Akureyri.

Skipið mun hefja síldveiðar næstu daga.


🔗 Timarit