Raudavik.net

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

Um vefsíðuna

Þessi vefsíða byggist að stórum hluta á ljósmyndum frá útgerð og síldarsöltun þeirra feðga Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar. Allmikið safn ljósmynda hefur safnast upp á löngum ferli og hefur myndefninu nú verið raðað upp í aðgengilega flokka.

Valtýr Þorsteinsson, sem löngum var kendur við Rauðuvík, var fæddur aldamótaárið 1900. Hann flutti til Rauðuvíkur árið 1928. Hann nam bátasmíði og öðlaðist meistarréttindi í þeirri iðngrein. Hann stundaði í fyrstu búskap, bátasmíði og sjósókn frá Rauðuvík. Um miðjan fjórða áratuginn hóf hann svo síldarsöltun í smáum stíl á Rauðuvík. Hreiðar sonur hans fæddist 1925. Hann byrjaði ungur að starfa við skipasmíðar, sjósókn og söltun. Að loknu Verslunarskóla námi tók hann svo fullan þátt í rekstrinum og varð hægri hönd föður síns. Reksturinn óx svo og dafnaði. Um miðjan sjöunda áratuginn voru í rekstri síldarplön á Raufarhöfn og Seyðisfirði, tvo ný stálskip og fjögur tréskip. Valtýr féll frá 1970 og sá Hreiðar um reksturinn allt til ársins 2001 er aflaskipið Þórður Jónasson EA 350 var selt. Hreiðar andaðist einu ári seinna.

Markmið vefsíðunnar er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar að koma myndefni í örugga geymslu á stafrænu formi; og hins vegar að birta það á opinni vefsíðu til gagns og gamans fyrir áhugasama um síldveiðiskip og síldarsöltun og til upprifjunar um líflegt mannlíf á sjó og landi. Tímabil myndanna er að stórum hluta frá fimmta til sjöunda áratugar, en teygir sig allt til aldamóta fyrir Þórð Jónasson EA 350 Myndaflokkum er raðað nokkurn veginn eftir ártölum, en sum þeirra eru óljós.

Aðal efni vefsíðunnar er því birting mynda og myndbanda, en ritmáli er einnig gerð skila m.a. með blaðaúrklippum. Saga útgerðar og söltunar kemur aðeins fram í einfaldri uppröðun ártala framkvæmda (sjá hér að neðan) Í einstaka tilvikum hefur verið farin sú leið að nafngreina fólk á myndum, en það mætti huga að því.

Ljósmyndirnar eru úr safni fjölskyldunnar. Margar þeirra eru teknar af Valtý Þorsteinssyni, Hreiðari, Valtý Þór eða öðrum í fjölskyldunni. Annarra myndasmiða er getið liggi það ljóst fyrir, en margar myndir hafa óljósan uppruna. Örfáar myndir eru merktar atvinnuljósmyndurum og er þess þá getið. Tæknileg úrvinnsla ljósmynda var í minnsta lagi, en minniháttar breytingar á lýsingu, skerpu og skurði voru þó gerðar Varðandi meiri lagfæringar þá færi best á því að fara í frumgögnin. Allmargar blaðagreinar fljóta með, en bent er á tímarit.is eða aðra miðla til nánari leitar.

Valtýr Þór Hreiðarsson safnaði og vann úr gögnum, færði í stafrænt form og skráði upplýsingar í rituðum texta. Varðandi endurbætur eða athugasemdir þá er best að snúa sér til umsjónarmanns vefsíðu, sem er Hreiðar Þór Valtýsson. Vefsíða búin til og viðhaldið af Joon Van Hove. Vefsíðan var opnuð í febrúar 2025.

STIKLAÐ Á STÓRU

Feðgarnir á kontórnum í Fjólugötu Feðgarnir á kontórnum í Fjólugötu, á sjötta áratugnum

Útgerð og síldarsöltun Valtýs Þorsteinssonar og Hreiðars Valtýssonar

SÍLDARSÖLTUN OG FISKVINNSLA

Norðursíld hf - Raufarhöfn

Norðursíld hf - Seyðisfirði

ÚTGERÐ TRÉ- OG STÁLSKIPA

TRÉSKIP

STÁLSKIP